Lambafille fyllt með sveppum, kapers og hvítlauk. Borið fram með bökuðum sætum kartöflum og jógúrtdressingu
Uppskriftin er fyrir 4
Fylling
100 gr sólþurrkaðir kirsuberjatómatar
1 msk kapers
1 hvítlauksrif (fínt rifið)
1 poki spínat
2 msk graslaukur (fínt skorin)
1 box shiitake sveppir
Sjávarsalt
Svartur pipar úr kvörn
Ólífuolía til steikingar
Skerið sveppina fínt niður og hitið pönnu með olíu og steikið sveppina þar til þeir eru gylltir. Bætið hvítlauknum og spínatinu út á pönnuna og hrærið öllu saman og slökkvið undir pönnunni. Skerið sólþurkuðu tómatana í strimla og bætið þeim út á pönnuna ásamt kapers og graslauk. Smakkið allt til með salti og pipar.
Fyllt lambafille
4 x 200 - 230 gr lambafille bitar með fitu
sjávarsalt
Svartur pipar úr kvörn
Olía til steikingar
Garn til að binda
Hitið pönnu með olíu og steikið kjötið með fituhliðina niður og brúnið hana þar til hún er gyllt. Snúið kjötinu við og haldið áfram að steikja í um það bil 1 mín eða þar lambið nær gylltum lit og kryddið kjötið með salti og pipar. Skerið eftir endilöngu í kjötið en passið að skera ekki alveg alla leið í gegn svo að það haldist saman. Setjið fyllinguna inn í kjötið og bindið það upp með snærinu. Eldið kjötið í 200°c heitum ofni í 15 mín. Takið kjötið út og setjið álpappír yfir það og látið það hvíla í 15 mín áður en það er borið fram.
Bakaðar sætar kartöflur og jógúrtdressing
2 stk sætar kartöflur
1 tsk fennelfræ möluð
1 tsk cumin malað
1 msk sjávarsalt
1 msk sambal oelek
½ sítróna
100 ml ólífuolía
Skrælið kartöflurnar og skerið eftir endilöngu. Leggjið kartöflunar í eldfast mót eða bökunarplötu. Setjið öll kryddin, sambalinn og olíuna saman í skál, rífið börkin af sítrónunni yfir allt saman og kreistið að lokum safan úr henni. Blandið öllu saman og smyrjið öllu jafnt yfir kartöflurnar. Setjið inn í 180°c heitann ofn í 40 mín eða þar til kartöflunar eru mjúkar undir tönn.
Jógúrtdressing
1 dós grísk jógúrt (350 gr)
1 stk lime, safinn og börkurinn fínt rifin
2 msk hlynsíróp
3 msk graslaukur (fínt skorinn)
1 tsk cumin malað
½ tsk salt
Setjið allt hráefnið saman í skál og blandið vel saman. Berið fram með sætu kartöflunum.