Steiktar grísakótilettur með gremolata og bökuð blómkáli með rjómaosti beikoni og döðlum.
Uppskriftin er fyrir 4
Grísakótilettur
4 stk ca 250 gr grísakótilettur
50 gr steinselja ( fínt skorin )
1 tsk hvítlauksduft
1 tsk laukduft
1 tsk timian
1 tsk fínt salt
1 stk sítróna (börkurinn fínt rifinn)
200 gr brauðraspur
Hveiti 150 gr
4 egg
100 gr smjör
Olífuolía til steikingar
Sjávarsalt
Svartur pipar úr kvörn
1 sítróna
Berjið kótiletturnar með kjöthamri báðum megin. Setjið raspinn í skál með steinseljunni, hvítlauksduftinu, laukduftinu, timianinu, fína saltinu og sítrónuberkinum og blandið öllu vel saman. Hellið hveitinu í skál og brjótið eggin í aðra skál og pískið þau saman með písk. Byrjið á að velta kótilettunum upp úr hveitinu, svo eggjunum og í lokinn upp úr kryddraspinum, passið að raspurinn hjúpi alla kótilettuna. Hitið pönnu með ólífuolíu og smjöri við meðal hita og brúnið kótiletturnar á báðum hliðum þar til þær eru orðnar gullinbrúnar. Setjið kótiletturnar inn í 180 gráðu heitann ofn í 8 mín eða þar til þær hafa náð 70 gráðu kjarnhita. Berið fram með sítrónubátum
Bakað blómkál með beikoni, rjómaosti og döðlum
2 stk blómkálshausar
100 gr beikon
80 gr döðlur ( skornar)
300 gr rjómaostur
250 ml rjómi
1 stk kjúklingakrafts teningur
40 gr eplaedik
Sjávarsalt
Svartur pipar úr kvörn.
Skerið beikonið niður í þunnar sneiðar og steikið þar til að það er orðið stökkt, lækkið undir pönnuni og bætið döðlunum út á pönnuna ásamt rjómanum og kjúklingakraftinum og sjóðið í ca 5 min við væga suðu, bætið svo rjómaostinum út í og blandið öllu varlega saman. Smakkið til með salti, pipar og eplaediki. Skerið blómkálið niður og setjið í eldfast mót, hellið rjómaostablöndunni yfir blómkálið og setjið inn í 200 gráðu heitann ofn og bakið í 30 min.
Gremolata
50 gr steinselja
½ sítróna börkurinn og safinn
1 msk fínt rifin fersk piparót
1 hvítlauksrif fínt rifið
200 ml ólífuolía
Sjávarsalt
Skerið steinseljuna fínt niður, rífið sítrónubörkinn og kreistið safann úr 1/2 sítrónu saman við. Blandið öllu hinu hráefninu saman og smakkið til með saltinu. Gott er að láta blönduna standa í nokkrar klst áður en hún er borinn fram.